Byggingafélagið Reir Verk hefur bætt við sig sex aðilum í stjórnenda- og framkvæmdateymi sitt í sumar. Reir Verk hefur verið í örum vexti síðustu misseri og er með yfir 800 íbúðir í vinnslu á höfuðborgarsvæðinu.

Garðar Atli Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri byggingaframkvæmda. Gatli, eins og hann er jafnan kallaður, hefur starfað hjá Eflu undanfarin 5 ár þar sem hann hefur tekist á við umfangsmikil verkefni í bygginga- og verkefnastjórn. Gatli er húsasmiður og byggingafræðingur að mennt auk þess að vera með sérhæfingu í öryggis- og umhverfismálum.

Guðbjörg Loftsdóttir hefur hafið störf hjá Reir verk sem sölu- og markaðsstjóri. Guðbjörg hefur starfað við verslunarstörf með námi undanfarin ár. Hún útskrifaðist sem viðskiptafræðingur B.Sc í vor.

Hreinn Jónsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri. Hann hefur starfað sem byggingatæknifræðingur hjá Einingaverksmiðjunni frá 2006. Hreinn er byggingatæknifræðingur ásamt því að vera með meistararéttindi í múrsmíði. Hann hefur einnig lokið meistaranámi í efnisfræði steinsteypu frá Edinborg.

Jóhannes Freyr Stefánsson er nýr verkefnastjóri hjá Reir verk. Jóhannes hefur starfað við byggingaframkvæmdir fyrir ýmsa aðila allt frá árinu 1990, nú síðast hjá Hús og lóðir ehf. Jóhannes er húsasmiður sem hefur sérhæft sig í gæðastjórnun í byggingaframkvæmdum.

Páll Edwald tekur við starfi verkefnastjóra í samninga- öryggis- gæða- og umhverfismálum. Páll er með meistaragráðu í lögfræði. Samhliða náminu starfaði hann hjá lögmannsstofunni LEX hérlendis og tæknifyrirtækinu 3Shape í Kaupmannahöfn.

Stefán Guðni Stefánsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri en hann hefur starfað við smíðar og verkefnastjórnun undanfarin ár. Stefán er húsasmíðameistari með byggingaiðnfræði.

„Það er mikill liðsstyrkur fyrir okkur að fá þessa nýju aðila í öflugt teymi núverandi starfsmanna. Við höfum vaxið mikið undanfarin misseri bæði í verktöku sem og í eigin verkefnum. Verkefnastaða fyrirtækisins er sterk og því viðbótar liðsstyrkur mikilvægur,” segir Rannveig Eir framkvæmdastjóri og meðeigandi Reir Verks ehf.