Signý Magnúsdóttir, einn af eigendum Deloitte á Íslandi, var kjörin í stjórn félagsins á aðalfundi í september. Hún tekur við af Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur sem lét af störfum í sumar. Signý tekur samhliða sæti í stjórn Deloitte Nordic, samstarfi allra Deloitte aðildarfélaga á Norðurlöndum.

Signý er löggiltur endurskoðandi og hóf störf hjá Deloitte árið 2006, þar af sem meðeigandi frá árinu 2013. Hún sinnir einna helst endurskoðun og ráðgjöf á sviði reikningsskila fyrir meðalstór og stór fyrirtæki með áherslu á skráð fyrirtæki og fyrirtæki sem starfa í alþjóðlegu umhverfi. Signý var yfirmaður reikningsskilaþjónustu Deloitte fram til ársins 2019 auk þess að vera í forsvari fyrir líftækni- og heilbrigðishóp Deloitte.

Árið 2019 tók Signý við sem fjármálastjóri hjá Sýn hf. og sinnti því starfi í tvö ár. Á þeim tíma tók hún þátt í mikilli umbreytingu á öllum ferlum fjármála hjá félaginu. Í byrjun sumars var tilkynnt um að Signý myndi snúa aftur til Deloitte.

Signý hefur auk þess sinnt kennslu og haldið fyrirlestra tengt reikningsskilum ásamt því að sitja í Reikningsskilaráði.

„Signý hefur umfangsmikla reynslu af því að leiða og taka þátt í umbreytingum félaga. Hún hefur mikla þekkingu og innsýn í starfsemi og markmið Deloitte og við berum fullt traust til hennar til að styðja vel við áframhaldandi vöxt félagsins,“ segir Jónas Gestur Jónasson, stjórnarformaður Deloitte, í fréttatilkynningu.