Sigríður Guðmundsdóttir hefur verið ráðin til starfa sem mannauðsstjóri Landsbankans, en hún hefur um 15 ára reynslu af mannauðsstjórnun. Sigríður tekur við í byrjun febrúar, en þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Sigríður tekur við af Baldri Gísla Jónssyni, en hann hafði gegnt starfinu undanfarin ellefu ár.

Á árunum 2017 til 2020 starfaði hún sem mannauðsstjóri Eimskips. Áður var hún mannauðsráðgjafi hjá félaginu og verkefnastjóri starfsþróunar. Sigríður hefur einnig starfað sem ráðgjafi hjá Attentus en í dag starfar hún sem framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Sigríður er með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands. Hún hefur lokið námi í stjórnendamarkþjálfun (e. executive coaching) frá Háskólanum í Reykjavík, er með diplóma í fræðslustarfi og stjórnun frá Háskóla Íslands og B.Ed.-gráðu frá Háskólanum á Akureyri.