Sigurður Atli Jónsson, fyrrverandi forstjóri Kviku banka, hefur verið ráðinn forstjóri Arctic Green Energy. Hann tekur við starfinu af Sigsteini Grétarssyni sem hefur gegnt stöðunni frá árinu 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.

„Sigsteinn hefur leitt fyrirtækið í gegnum vöxt á starfsemi okkar í Kína sem hefur varpað ljósi, á gríðarstórum skala, hvað jarðhitaorka er ómengandi, sjálfær og svæðisbundin lausn á orkuskiptum með hitaveitum,“ er haft eftir Hauki Harðarsyni, stjórnarformanni og stofnanda Arctic Green Energy.

„Við erum spennt að bjóða Sigurð Atla velkomin sem forstjóra en hann hefur verið frábær í fyrra hlutverki sínu hjá Arctic Green Energy. Hann er farsæll leiðtogi og mun koma með vermæta þekkingu inn í fyrirtækið nú þegar við stækkum okkar fótspor.“

Sjá einnig: Arctic Green fær 30 milljarða fjárfestingu

Sigurður Atli hefur setið í stjórn Arctic Green Energy frá árinu 2017. Hann var forstjóri Kviku, sem hét áður MP banki, á árunum 2011-2017. Hann leiddi samruna MP banka og Straums árið 2015, en sameinaður banki hlaut þá nafnið Kvika.

Arctic Green Energy sérhæfir sig í nýtingu jarðvarma af mismunandi hitastigi við upphitun og orkuframleiðslu. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Singapúr og heldur úti starfsemi í Kína og Evrópu.