Sigurður Már Eggertsson, lögfræðingur og persónuverndarsérfræðingur, hefur gengið til liðs við Deloitte og mun starfa sem liðsstjóri á sviði Áhætturáðgjafar félagsins.

Sigurður Már hefur undanfarin ár starfað sem lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi hjá byggðasamlögum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Sorpu og Strætó ásamt því að hafa sinnt hlutverki persónuverndarfulltrúa fyrir fjölda sveitarfélaga.

Á árunum 2018 og 2019 starfaði hann sem lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi hjá Ísafjarðarbæ þar sem hann var verkefnastjóri við innleiðingu nýrrar persónuverndarlöggjafar.

Sigurður Már er með meistara- og fullnaðarpróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

„Eftirspurn eftir fagþekkingu á sviði persónuverndar hefur aukist mikið undanfarin misseri, bæði hjá fyrirtækjum sem og opinberum aðilum. Sérþekking og reynsla Sigurðar Más í ráðgjöf til sveitarfélaga á þessu sviði mun geta eflt þjónustu okkar um allt land. Ég er afar spennt fyrir því að fá Sigurð Má í teymið og ná áframhaldandi vexti og árangri með viðskiptavinum okkar,“ er haft eftir Birnu Maríu Sigurðardóttur, sviðsstjóra Áhætturáðgjafar Deloitte, í fréttatilkynningu.