Silja Jóhannesar Ástudóttir hefur verið ráðin í starf samskiptastjóra Háskólans á Akureyri. Hún tekur við starfinu af Katrínu Árnadóttur, sem undanfarin sjö ár hefur verið forstöðumaður Markaðs- og kynningarmála.

Undanfarin ár hefur Silja starfað sjálfstætt sem verkefnastjóri og ráðgjafi við einstaklinga og fyrirtæki er varðar stofnun fyrirtækja, fjármögnun, sölu, viðskiptaáætlanir, vöruþróun, markaðssetningu, styrkjaumsóknir og tengslanet.

Silja er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, B.A. gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og jafnframt hefur hún stundað nám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri.

Hún hefur komið að mörgum verkefnum sem tengjast sérstaklega nýsköpun á landsbyggðunum og starfaði áður meðal annars hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Capacent. Silja hefur nú þegar störf í hlutastarfi en kemur inn í fullt starf í haust.