Birkir Karl Sigurðsson hóf störf sem viðskiptastjóri í útflutningsdeild Samskipa fyrir rúmum tveimur vikum. Hann kemur til Samskipa frá Arion banka þar sem hann starfaði í fimm ár, síðast sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði.

„Það eru dálítil viðbrigði að fara úr bankastarfseminni í flutningageirann, þar sem maður í raun fer úr því að selja peninga í að selja gáma. Ég er búinn að læra mjög hratt og mikið, sem er einmitt helsta ástæðan fyrir því að ég tók þetta skref. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt.“

Óraði ekki fyrir vinsældir hlaðvarpsins

Birkir Karl hefur stýrt hlaðvarpinu Chat after Dark ásamt Leifi Þorsteinssyni undanfarin tvö ár. Þeir ákváðu að fara af stað með hlaðvarpið, sem hét upphaflega Chess after Dark, eftir að Netflix þættirnir Queen's Gambit, sem fjalla um unga skákkonu, slógu í gegn. Í fyrstu fengu þeir til sín gesti til að tefla og spurðu þá samtímis spjörunum úr.

„Við fengum merkilega góðar áhorfstölur og það var greinilega mikill áhugi á þessu. Við fundum þó snögglega fyrir því að vorum bundnir við að fá gesti sem kunna að tefla og geta auk þess talað á sama tíma. Við ákváðum þá að rífa í gikkinn og byrja með spjallþátt,“ segir Birkir Karl. Fyrir vikið var nafni hlaðvarpsins síðar breytt í Chat after Dark. „Okkur óraði ekki fyrir að hlaðvarpið yrði svo eitt það vinsælasta á Íslandi.“

Gestir þáttarins eru af fjölbreyttum toga og hafa þeir m.a. fengið til sín þekkta aðila úr atvinnulífinu og stjórnmálum. Meðal gesta í fyrra voru Kári Stefánsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Bogi Nils Bogason og Bjarni Benediktsson.

„Það fallega við hlaðvarpið er að við erum ekki bundnir við eitt málefni. Í byrjun fjölluðum við mikið um fótbolta en svo ósjálfrátt byrjuðum við að fá til okkar gesti úr öðrum áttum. Það kviknaði eitthvað hjá okkur þegar við fengum Heiðar Guðjónsson í fyrsta sinn. Það var einn af okkar skemmtilegustu þáttum en auk þess lærðum við mikið af honum. Í kjölfarið leituðum við í auknum mæli til fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.“

Hristu upp í íslensku skáklífi

Fyrir hálfu ári skipulögðu Birkir Karl og Leifur skákmót í samstarfi við Gerði í Blush, stuttlega í kjölfar þess að deilur Magnus Carlsen og Hans Niemann skóku skákheiminn. Mótið naut mikilla vinsælda og hafa þeir félagar síðan skipulagt nokkur mót í kjölfarið og Barion skákmótaröðina.

„Mér fannst íslenskt skáklíf orðið dálítið eins og Groundhog Day, það var búið að vera nær óbreytt í tuttugu ár. Skáksamfélagið hefur tekur okkur fagnandi. Í framhaldinu af Blush mótinu hugsaði ég að þetta væri frábært viðskiptalíkan. Margir vinnustaðir eru reglulega með pöppkviss. Ég segi bara hættið með þessi pöbbkviss og bingó og verið frekar með skákmót.“

Birkir Karl lauk BS gráðu í fjármálaverkfræði frá HR árið 2021 og kláraði nýlega próf í verðbréfamiðlun. Hann er í sambúð með Birnu Sif Árnadóttur en þau hafa verið saman í fimm ár.

Viðtalið við Birki Karl birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út fimmtudaginn 2. febrúar.