„Í þessu starfi mun ég meira sinna stefnumótun og skipulagningu á því hvaða auglýsingar birtast hvar og hvenær, og á móti verð ég væntanlega ekki jafnmikið með andlitið ofan í facebook business manager og google analytics," segir Jóhann Þórsson sem tekið hefur við sem markaðsstjóri Sjóvá.

„Ég kem frá Heimkaupum til Sjóvá í ársbyrjun 2019 sem sérfræðingur í stafrænni miðlun og sem vefstjóri. Þótt ótrúlegt sé þá er tryggingaiðnaðurinn meira spennandi en fólk gerir sér grein fyrir, enda er mikil þróun að eiga sér stað í honum. Nú getur fólk afgreitt tilboð í eigin tryggingar sjálft og verið með yfirlit yfir sínar tryggingar í símanum sem hingað til hefur þurft að hringja inn og ræða við einhvern heillengi til að skilja."

Jóhann fór til Heimkaupa frá Dohop en hann hafði verið ráðinn þar sem forritari enda tölvunarfræðingur að mennt. „Það var nú eiginlega alger slysni að ég endaði sem markaðsstjóri, því ég byrja sem tengiliður milli forritaranna og þeirra sem voru að reyna að vekja athygli á þessu nýsköpunarfyrirtæki, sem við reyndum að gera án þess að það mætti kosta mikið með því að vera sniðugir. Þar í markaðsteyminu fannst mér svo í fyrsta skipti skemmtilegt í vinnunni," segir Jóhann.

„Ég byrjaði þó í líffræði, en mér er minnisstæður dagurinn sem ég sendi inn umsókn í háskólann. Þá sit ég á rúminu á heimavistinni í MA með umsóknareyðublöð í að mig minnir tíu deildir í háskólanum, sem kristallar að maður vissi þá ekkert hvað maður ætlaði að verða þegar maður væri orðinn stór. Ég áttaði mig svo á að í tölvunarfræðinni fær maður verkfærasett sem hægt er að nota í hvaða atvinnu sem er, sem nýst hefur vel í markaðsfræði nútímans."

Jóhann lærði hins vegar lífupplýsingafræði í London en það var ekki í fyrsta sinn sem hann bjó á erlendri grundu.

„Þegar ég var níu ára þá flyt ég til Ísrael þar sem ég fer í amerískan einkaskóla sem var nákvæmlega eins og þeir eru í bíó. Faðir minn starfaði þar fyrir Sameinuðu þjóðirnar handan landamæranna í Líbanon. Það kom mér eiginlega mest á óvart að öfugt við það sem maður heyrir í fréttum þá er mjög týpískt hversdagslegt vestrænt samfélag þarna í Ísrael. Síðan flytjum við til Króatíu stuttu eftir að stríðinu þar lauk," segir Jóhann.

Kona Jóhanns er Heiður Hrund Jónsdóttir, félagsfræðingur hjá Háskóla Íslands, en þau eiga tvö börn á aldrinum sjö og ellefu ára. „Til að búa mér til frítíma vakna ég stundum eldsnemma á morgnana, klukkan 5, og er þá að skrifa smásögur, leikrit og bækur þegar aðrir sofa. Ég er nýbúinn að skrifa undir samning við forlag í Bandaríkjunum um útgáfu á leynilögreglusögu með yfirnáttúrulegu ívafi og smá Íslandstengingu."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .