Ég er spenntur fyrir áskoruninni framundan og að vinna með fólkinu hjá Lucinity,“ segir Hjörtur Líndal Stefánsson, nýr framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Lucinity. Hann hefur á síðastliðnum sex árum starfað fyrir Amazon, þar sem hann bar ábyrgð á myndbandsauglýsingakerfi allra miðla í eigu félagsins. „Ég er að fara í öðruvísi umhverfi núna og það er heillandi hversu hratt hlutirnir gerast í sprotaumhverfinu sem Lucinity starfar innan. Fyrir mér er mikils virði að vinna við eitthvað sem gerir heiminn betri.“

Áður en Hjörtur flutti út til Kanada að starfa fyrir Ubisoft vann hann hjá CCP í fjögur og hálft ár og hjá Meniga í hálft ár. Amazon bankaði á dyrnar árið 2016 og fluttist Hjörtur í kjölfarið til Vancouver að starfa í Prime Video teyminu hjá Amazon, en hann talar vel um borgina. „Vancouver er svipuð og Ísland að því leyti að það er útsýni sama hvar þú ert og mikil náttúrufegurð, og leið okkur eins og við værum komin heim.“

Eftir rúmlega þriggja ára veru í Kanada ákvað fjölskyldan að prófa að flytja til Bandaríkjanna. „Kosturinn við að starfa hjá Amazon er að það er auðvelt að flytja annað svo lengi sem þú finnur þér teymi,“ en fjölskyldan fluttist þá til Austin í Texas. Þar kom Hjörtur inn í teymi þar sem meginverkefnið var að stilla inn auglýsingar í viðburði sem voru í beinni útsendingu, meðal annars NFL leiki. „Ég endaði á því að leiða teymið og það óx hratt, en þegar ég hætti voru 13 manns í teyminu.“ Nýlega gerði Amazon Prime 11 ára samning við NFL um að sjá alfarið um útsendingar á leikjum og fara nú allar auglýsingar í gegnum Amazon.

Hjörtur á þrjár dætur með Margréti Hannesdóttur kennara og á einn son frá fyrra sambandi. „Lífið snýst að miklu leyti um fjölskylduna og við höfum ferðast mikið saman. Við fórum til að mynda í tvö ferðalög um Bandaríkin og heimsóttum fjörutíu fylki.“

Nánar er rætt við Hjört í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 29. september síðastliðinn.