„Við erum að aðstoða fyrirtæki við að ná sínum markmiðum með greiningum á fjárhag og áætlanargerð. Okkar hlutverk er að koma inn og greina það sem er í gangi, aðstoða fyrirtækin við að setja upp fjárhagsáætlanir og greina hvort þau séu að ná sínum markmiðum,“ segir nýr ráðgjafi hjá Cubus, Jóhann Örn B. Benediktsson, sem þrátt fyrir ungan aldur hefur komið víða við í atvinnu og námi.

„Ég byrjaði í áskriftardeild DV þegar ég var 18 ára, fór síðan yfir í auglýsingarnar og tók síðan við stjórn lausasölu á áskriftum fyrir blaðið tvítugur þegar ég fór í viðskiptafræði við HÍ. Ég skráði mig fyrst í markaðsfræði því ég hafði mikinn áhuga á henni en þegar líða tók á námið sá ég að fjármálin lágu miklu betur fyrir mér. Síðan fór ég út til Toulouse í Frakklandi að læra stjórnun alþjóðafyrirtækja, og loks þegar ég kom varð ég sá yngsti sem hefur komist inn í MBA-námið í HÍ en ég útskrifaðist þar í fyrra 26 ára gamall.“

Jóhann Örn segist ekki óvanur fjölbreyttum samstarfsaðilum og verkefnum. „Ég hef í raun alltaf unnið með eldra fólki og oftast í stjórnendastöðum þar sem ég er langyngstur. Síðustu ár hef ég verið fjármálastjóri hjá lögmannsstofu, fasteignasölu og aðalbókari í útgerðarfélagi sem öll eru í eigu Björns Þorra Viktorssonar, en þar var ég líka í markaðs- og mannauðsmálunum,“ segir Jóhann Örn sem samhliða var einnig með eigin ráðgjöf og nýsköpunarfyrirtæki í sýndarveruleika.

„Það var mikil og góð reynsla, en líka að vera samhliða í MBA námi með fólki með bakgrunn í alls konar starfsgreinum. Þar var ég reyndar beðinn um að kenna aukatíma  í fjármálum og rekstrarbókhaldi. Einnig var mikilvægt að kynnast mjög ólíkum menningarhópum úti í Frakklandi. Í náminu þar var mikil áhersla á að kenna fólki að aðlagast hvaða þjóðfélagshópum sem er, með oft mjög mismunandi skoðanir og lífshætti.“

Jóhann Örn er í sambúð með Birgi Má Guðlaugssyni, vefstjóra hjá heildversluninni Ásbjörn Ólafsson, en síðustu ár hefur Jóhann Örn verið í Hinsegin kórnum í frítíma sínum. „Þegar maður er að vinna mikið með tölur og annað sem getur verið lýjandi andlega er gott að geta leyft sér að slaka á og koma öllu út bara með því að syngja. Þetta er mjög þéttur og skemmtilegur hópur en það sem stendur upp úr í söngferlinum var þegar kórstjórinn Helga Margrét Marzellíusardóttir fékk mig til að takast á við eitt af því sem ég óttast mest, að syngja einsöng fyrir framan fólk, þegar ég tók All I Want for Christmas Is You eftir Mariah Carey á jólatónleikum í Gamla bíói.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .