Þórður Guðjónsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Skeljungs. „Ráðningin gekk hratt fyrir sig,“ segir Þórður. „Þetta er fyrst og fremst sölu- og þjónustustarf gagnvart fyrirtækjum á Íslandi og á alþjóðlega svæðinu í kringum landið.“

Þórður hefur starfað fyrir Símann síðustu ár en áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA um árabil. „Ég var atvinnumaður í fótbolta á árunum 1993 til 2006 en þá kom ég aftur heim til Íslands og fór beint í viðskiptafræði á Bifröst,“ segir Þórður sem tók við framkvæmdastjórastöðunni árið 2007 meðan hann var enn í náminu.

„Ég útskrifaðist þaðan árið 2010 og starfaði hjá knattspyrnufélaginu þar til ég fékk vinnu hjá Símanum sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði. Tíu mánuðum seinna tók ég svo við sem forstöðumaður og þar hef ég verið allar götur síðan.“

Þó að Þórður starfi nú í höfuðborginni keyrir hann fram og til baka heim á Akranes á hverjum degi. „Þetta er besti tími dagsins, að kúpla sig niður eftir vinnu og svo kúpla sig inn á leiðinni suður,“ segir Þórður sem er giftur Önnu Lilju Valsdóttir.

„Ég er búinn að vera með henni í 27 ár og eiga með henni þrjár dætur. Ein er tólf ára, önnur tvítug og sú þriðja 23 ára, en hún á von á barni í febrúar þannig að ég er að verða afi. Þessi tvítuga er svo í námi og fótboltastyrk í Bandaríkjunum svo að þessi tólf ára er ein eftir heima með gamla settinu.“

Þórður sjálfur segist þó alveg hættur í fótboltanum. „Ég sparka ekki í bolta lengur,“ segir Þórður. „Ég fann enga þörf á því eftir að ég hætti að hafa þetta sem atvinnu í tuttugu ár. Þegar því lauk prófaði ég að fara í svona bumbubolta og fann að það var bara ekkert fyrir mig, annaðhvort gerir maður þetta almennilega eða sleppir því.“

Þórður segist hafa mest gaman af því að ferðast um með fjölskyldunni og stunda útivist, en auk vinnunnar hefur hann í nógu að snúast í bæjarstjórnarmálunum á Akranesi.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .