Stefán Broddi Guðjónsson, sem hefur starfað hjá Arion banka í tíu ár, hefur verið ráðinn í starf sveitarstjóra í Borgarbyggð af meirihluta sveitarstjórnar. Ætlað er að hann taki til starfa þann 1. júlí, að því er kemur fram í frétt Skessuhorns.

Stefán Broddi er uppalinn í Borgarnesi og bjó þar fram á þrítugsaldurinn. „Það reyndist mér afar gott veganesti út í lífið að alast upp í Borgarnesi. Ég er sveitarstjórn og íbúum afar þakklátur fyrir tækifærið og mun leggja mig allan fram um að standa mig. Tækifærin í Borgarbyggð eru óþrjótandi,“ er haft eftir honum.

Stefán Broddi hefur síðastliðin tíu ár starfað hjá Arion banka, síðast sem sérfræðingur í markaðsviðskiptum. Hann stýrði einnig um tíma greiningardeild bankans. Stefán Broddi er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og próf í verðbréfaviðskiptum.

Áður en hann var ráðinn til Arion banka þá starfaði hann hjá Straumi fjárfestingarbanka í markaðsviðskiptum og sem forstöðumaður eigin viðskipta á Íslandi árin 2008 - 2011. Þar áður var hann fjárfestingastjóri hjá Exista í rúm tvö ár og árin 2001-2006 starfaði hann í Íslandsbanka sem sérfræðingur í greiningu og markaðsviðskiptum. Þar áður starfaði hann sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu.