„Nýja starfið felur í sér vinnsluráðgjöf fyrir viðskiptavini Völku, bæði nýja og núverandi, en hún snýst um að hanna lausnir og uppsetninguna á vinnslulínum fyrir þá sem eru að fjárfesta í nýjum kerfum," segir Kristján Hallvarðsson sem tekur hefur við nýrri stöðu sem vinnsluráðgjafi hjá Völku.

„Ég hef komið víða við á ferlinum, fyrst einna mest í kringum vöruþróunina þegar ég var hjá Marel, en hér hjá Völku hef ég verið meira í sölunni, en með þessu nýja starfi má segja að ég sé að tengja þetta tvennt aftur saman. Viðskiptavinir okkar, sem eru bæði í hvítfiskinum og laxinum, eru allir að gera vinnsluna sína á mismunandi hátt. Oft er húsnæði til staðar sem þarf að koma skurðarvélinni, sem er okkar aðalvara, og öðrum búnaði fyrir á skynsamlegan hátt og svo framvegis."

Kristján byrjaði í fisktæknigeiranum áður en hann kláraði háskólanámið. „Það var dálítil tilviljun að ég fór út í þennan geira en á þessum árum þurfti maður að klára lokaverkefni í rafmagnsverkfræðinni sem var gert hjá Marel. Í því notaði ég tölvusjón til að stýra róbóta og láta taka hluti upp af færibandi á ferð, og í framhaldinu var ég ráðinn þar til vinnu," segir Kristján.

„Þá var Marel bara lítið fyrirtæki uppi á Höfðabakka með um 40 starfsmenn, en þó það sé virkilega aðdáunarvert að sjá hvernig Marel hefur stækkað og dafnað síðan þá ákvað ég árið 2016 að breyta til. Það heillar svolítið að vera í svona frumkvöðlastarfi þar sem er meiri dýnamík og hlutirnir gerast hratt."

Kona Kristjáns er Ágústa Áróra Þórðardóttir hjúkrunarfræðingur og á hann þrjár dætur á aldrinum 28, 26 og 18 en hún tvö börn fyrir.

„Síðan kom eitt barnabarn hjá konunni í janúar og hefur það verið ótrúlega gaman að fá nýjan fjölskyldumeðlim. Fyrir utan að sinna fjölskyldunni eru áhugamálin mörg, en tengjast aðallega einhverri hreyfingu, eins og fjallgöngum, hjóla, synda, hlaupa og fara á veiðar. Nú fá fjallgöngurnar mesta tímann, kannski því ég var ekki duglegur að ganga á síðasta ári, og skráði ég mig því í verkefnið Vesen og meirabrölt hjá Einari Skúlasyni sem er svakalega góð hreyfing, enda er markmiðið að enda á Hvannadalshnúki í vor," segir Kristján.

„Það er svo gott að breyta um umhverfi og komast upp á fjall þegar maður hefur hangið of mikið fyrir framan tölvuna. Við konan förum svolítið í göngur, til dæmis í haust í einstöku umhverfi Como vatns í Ítalíu og svo fórum við fyrir nokkrum árum í ferð um Mount Rainier og St. Helen á vesturströnd Bandaríkjanna þar sem enn er hægt að sjá ummerkin frá því að toppur fjallsins sprakk og á stórum svæðum kubbuðust trén niður eins og tannstönglar. Það var magnað að sjá."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .