KPMG hefur nýlega fengið til starfa fjóra nýja sérfræðinga. Þetta eru þau Bryndís Gunnlaugsdóttir, Guido Picus, Sævar Helgi Bragason og Þorsteinn Guðbrandsson. Um 60 sérfræðingar starfa nú við ráðgjöf hjá félaginu.

Sævar Helgi Bragason hefur hafið störf í ráðgjöf og mun sérhæfa sig í sjálfbærni og umhverfismálum. Sævar er jarðfræðingur að mennt, kennari, dagskrárgerðarmaður í sjónvarpi og útvarpi auk þess að vera rithöfundur. Hann starfaði áður í teymi lofslags og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, auk þess að starfa sjálfsætt við ýmis verkefni sem tengjast vísindamiðlun.

Þorsteinn Guðbrandsson hefur hafið störf í ráðgjöf og mun sérhæfa sig á sviði fjármála- og rekstrarráðgjafar. Þorsteinn er viðskiptafræðingur með yfir 20 ára reynslu af kaupum og sölu fyrirtækja og hefur leitt tugi viðskipta með fyrirtæki, bæði hér á landi og erlendis. Auk fyrirtækjaviðskipta hefur Þorsteinn reynslu að fyrirtækjarekstri og starfaði um árabil í upplýsingatækni, áður en hann fór til starfa á fyrirtækjasviði Straums-Burðaráss, fjárfestingabanka. Undanfarin 14 ár hefur Þorsteinn búið í Austin, Texas þar sem hann hefur starfað sjálfstætt við fjármála-, fjárfestinga- og rekstrarráðgjöf.

Bryndís Gunnlaugsdóttir hefur hafið störf í ráðgjöf og mun sérhæfa sig í þjónustu við ríki og sveitarfélög. Bryndís starfaði áður sem lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og Útlendingastofnun. Hún var forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar árin 2010-2014 og hefur setið í fjölda stjórna, nefnda og ráða fyrir bæði sveitarfélög og ríki. Bryndís er með BA og ML próf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Guido Picus hefur hafið störf í ráðgjöf og mun sérhæfa sig í því að aðstoða fyrirtæki og opinbera aðila við úttekt, skipulagningu og innleiðingu á stafrænum umbreytingum. Guido hefur yfir 20 ára reynslu frá London, Munchen og Quito og hefur áður starfað hjá Amazon, Deloitte og Futura Innovation Lab. Hann lærði greiningu og hönnun kerfa í University of South Carolina og er með MBA gráðu frá University of Edinburg.