„Ég er að taka við sem sjóðsstjóri í Brunni 2, nýjum 8 milljarða króna fjárfestingarsjóði í nýsköpun sem verið er að safna nú áskriftarloforðum fyrir og klárast nú í haust. Árni Blöndal og Sigurður Arnljótsson stofnuðu Brunn Ventures árið 2015 sem þeir eru nú að byggja upp í vísissjóðsfyrirtæki með nokkrum sjóðum,“ segir Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir sem gengið hefur til liðs við Brunn Ventures.

„Við erum ábyrg fyrir sjóðnum og fjárfestingum hans en í því er gott að hafa góða breidd. Árni hefur mikla þekkingu í heilsuog líftækni auk netviðskipta og fjármögnunar, og Sigurður hefur komið mikið að leikjafyrirtækjum, IT og netöryggi og svo kem ég með iðnaðar-, orku- og tæknivíddina. Við erum mjög spennt að fara að greina nýja sprota og styðja við þá svo þeir vaxi og verði stórir.“

Margrét segir tækifærin á Íslandi í dag liggja í iðnaði, tækni, orku og græna geiranum. „Stóru orku- og tæknifyrirtækin hafa verið að opna fyrir samstarf við sprotafyrirtæki í gegnum klasasamstarf ýmiss konar, sem hjálpar þeim að þróa ný tækifæri og lausnir. Sem dæmi um afraksturinn má nefna eitt fyrirtækjanna sem Brunnur 1 á í, DTE sem byggir á nýsköpun í áliðnaði sem var einungis möguleg því aðgangurinn hér að álfyrirtækjunum auðveldaði þeim alla vöruþróun,“ segir Margrét sem sjálf er verkfræðingur.

„Það er svo skondið með lífið að þegar maður lítur til baka þá tengist einhvern veginn allt saman, en það var ekkert þaulúthugsað að ég fór í verkfræði. Ég var sterk í raungreinum og stærðfræði, en kannski ekki mikill grúskari í þeim skilningi að ég hafi gaman af því að liggja yfir bókum. Svo þegar ég heyrði fyrirlestur um stelpur í verkfræði sem benti á hversu lausnamiðað nám þetta er þá fannst mér það geggjað. Ég byrjaði svo að vinna á verkfræðistofu sem var í næsta húsi við þar sem ég bjó eftir að ég hafði labbað þangað inn til að spyrja út í ýmis verkfræðileg heiti. Síðan var ég veidd yfir í bankana eins og svo margir á þessum tíma, fyrst í teymi um tækifæri í græna geiranum.“

Margrét er gift Jóni Kristni Sverrissyni og saman eiga þau þrjár stelpur á aldrinum 14, 10 og 7 ára. „Við byrjuðum saman á busaballinu í MR, vorum búin að þekkjast í tvær vikur í gegnum danskennsluna í skólanum fyrir ballið, þar sem við vorum smá hrædd við að bjóða hvort öðru upp þegar var herra- og dömufrí. Ég hef verið mikið í dansinum alla tíð, dútlað aðeins í samkvæmis- og listdansi og tók meira að segja einhverja danstíma í samkomubanninu. Síðan lifi ég aðeins í gegnum dæturnar sem allar læra og keppa í dansi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .