Svanborg Sigmarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Viðreisnar og hóf störf nú um mánaðarmótin, en hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks flokksins og verkefnastjóri sveitarstjórnarmála frá árinu 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Svanborg tekur við starfinu af Jennýju Guðrúnu Jónsdóttur og er þriðji framkvæmdastjóri flokksins frá stofnun árið 2016.

Áður en hún hóf störf fyrir Viðreisn starfaði Svanborg hjá Ríkisendurskoðun, Umboðsmanni skuldara, Varnarmálastofnun, á Fréttablaðinu, AFP og kenndi stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst, en hún er stjórnmálafræðingur að mennt.