„Mitt hlutverk verður að styðja við sölu félagsins með því að koma okkar vörum og stafrænu lausnum á framfæri til fyrirtækja á Íslandi og erlendis," segir Inga Birna Ragnarsdóttir, nýr framkvæmdastjóri markaðssviðs Wise.

„Í störfum mínum bæði hjá Icelandair og Wow hér áður fyrr var ég kaupandi að tækni svo ég skil hlið viðskiptavinarins vel og eftir tíma minn hjá Kosmos og Kaos skil ég enn betur þörfina á stafrænu umbreytingunni sem er að eiga sér stað í fyrirtækjum í dag."

Eftir útskrift úr viðskiptafræði tók Inga Birna við sem forstöðumaður markaðssviðs Flugfélags Íslands en árið 2012 tekur hún við sem aðstoðarforstjóri hjá Wow air. „Ég elst upp í Keflavík, bara við hliðina á flugvellinum svo það lá beinast við að fara að vinna við flugið, svo 18 ára fer ég að þrífa flugvélar, þar vinn ég mig upp í innritunina, og hélt svo áfram að vinna mig þar upp með háskólanámi," segir Inga Birna sem ekki er sjálf menntuð í tækni.

„Ég vil stöðugt vera að læra, en alveg frá því ég var ung og var að steikja flatkökur hef ég alltaf reynt að vaxa í starfi þannig að ég fái sem mest úr hverju þeirra. Þannig var það þegar ég var 16 ára og fór að vinna við að pakka inn flatkökum. Þá var aðalmarkmiðið að komast í steikinguna því þá var maður kominn á toppinn þar."

Inga Birna ákvað svo að taka hvíld eftir mikla vinnu síðustu ára. „Ég sagði upp vinnunni minni fyrir ári síðan og ætlaði þá að taka mér tveggja ára pásu en þeir sem þekkja mig vita að ég sef hratt, ég er það ofvirk, og verð að hafa eitthvað fyrir stafni svo ég fór í jógakennaranám. Það hefur verið mjög gott fyrir mig að læra að sitja í hugleiðslu og finna innri frið," segir Inga Birna, sem er í sambúð með Hrafni Árnasyni, forstöðumanni hjá Íslenskum verðbréfum.

„Við eigum þrjú börn í heildina, mín tvö eru uppkomin, en utan vinnu hef ég mikið fylgt börnunum og stutt við þeirra áhugamál. Sjálf stunda ég golf og skíði af kappi, en yngri dóttir mín sem er 19 ára hefur spilað fyrir landsliðið í golfi og fór í nám til Bandaríkjanna á íþróttastyrk í haust, og sú eldri, sem er 23 ára er að læra leiklist við LHÍ.

Ég er í tveimur veiðihópum og svo hef ég einstaklega gaman af því að spila. Við hjónin erum í tveimur spilahópum, eigum alveg safn af spilum og hittumst reglulega með vinahjónum, borðum góðan mat og spilum. Það er þá allt frá Cards Against Humanity þegar við erum í þannig stuði upp í alvöru flækjustigsspil sem ganga út á herkænsku."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .