„Mér líst mjög vel að vera kominn til Dokobit. Félagið er með tækni sem er að taka yfir og mun breyta heiminum,“ segir Jóhann Ingi sem hefur verið ráðinn markaðs- og samskiptastjóri Dokobit á Íslandi, en félagið býður upp á rafrænar undirskriftir og meðferð rafrænna gagna.

Áður gegndi Jóhann stöðu markaðsstjóra hjá tölvuleikjaframleiðendunum Solid Clouds og Lumenox Games. Þá þróaði hann tölvuleikinn Pandu með föður sínum Guðjóni Inga Haukssyni grafískum hönnuði, og í samstarfi við sálfræðinga og geðlækna. Þeir félagar hlutu styrk frá Tækniþróunarsjóði Íslands.

„Leikurinn er hugsaður til þess að hjálpa fólki sem þjáist af þunglyndi og kvíða. Fólk sem þjáist af þessum sjúkdómum leitast oft í tölvur. Með þessum leik viljum við hjálpa fólki að nota tölvuleiki til að komast úr tölvunni.“

Jóhann hefur farið víða í námi sínu og meðal annars sótt skiptinám í Roma Tre háskólann í Rómarborg. „Ég hef alltaf verið heillaður af Ítalíu. Ég kláraði BS og MS gráðuna hér heima en vildi taka eitt ár úti í Róm líka til að fá breiðari sýn og veraldarlega reynslu.“

Auk þess að hafa gaman af því að ferðast er Jóhann mikið fyrir tölvuleiki, eins og sést á starfsreynslu hans. Þá æfir hann brasilískt jiu jitsu fimm sinnum á viku hjá Reykjavík MMA. „Ég mæli með þessari íþrótt fyrir alla, hver sem er getur fundið sig í henni. Sem dæmi eru tveir frægir menn sem hafa nýlega byrjað að æfa jiu jistu, þeir Tom Hardy og Mark Zuckerberg. Þetta eru ólíkustu menn sem þú finnur, svo ef þú ert einhvers staðar þarna á milli ættirðu að geta fundið þig.“

Nánar er rætt við Jóhann í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.