Ferðatæknifyrirtækið Travelshift, sem rekur m.a. Guide to Iceland markaðstorgið, hefur ráðið Telmu Sveinsdóttur í stöðu mannauðsstjóra. Telma kemur til Travelshift frá Símanum þar sem hún starfaði sem fræðslusérfræðingur.

Þar á undan starfaði hún um árabil sem mannauðssérfræðingur hjá Landspítalanum, þar sem hún sérhæfði sig í ráðningum og aðlögun erlendra sérfræðinga. Telma er með mastersgráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands.

Sjá einnig: Guide to Iceland verður Travelshift

„Travelshift er framúrskarandi fyrirtæki að mörgu leyti og ekki síst þegar kemur að því að gera vel við starfsfólkið sitt, en hópurinn er m.a. nýkominn frá Portúgal. Það eru að auki eru spennandi tímar framundan hjá Travelshift. Fyrirtækið fagnar 10 ára afmæli með tónleikum á Ingólfstorgi laugardaginn 2. júlí þar sem fram koma Friðrik Dór, Gugusar og Herra Hnetusmjör. Það verður frítt inn og öllum er boðið en tónleikarnir byrja klukkan 20 og standa til 22. Það verður gaman að fá að vinna með teyminu og einstakt tækifæri að fá að taka þátt í þessari vegferð,” er haft eftir Telmu í fréttatilkynningu.