Theodór Sölvi Blöndal hefur gengið til liðs við Alfa Framtak sem sérfræðingur í sérhæfðum fjárfestingum. Theodór hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2016, en síðustu tvö árin hefur hann gegnt stöðu sjóðstjóra í erlendum hlutabréfum hjá Stefni.

Þar áður starfaði hann hjá Ísafold Capital Partners og Íslenskum verðbréfum sem sérfræðingur í sérhæfðum fjárfestingum, þar sem hann fékkst helst við millilagsfjármögnun.

Theodór lauk meistaranámi í fjármálaverkfræði og áhættustýringu frá Imperial College í London árið 2016. Auk þess hefur hann lokið öllum stigum CFA og prófi í verðbréfaviðskiptum.

„Alfa Framtak hefur frá stofnun fyrsta framtakssjóðsins komið með virka nálgun á framtaksfjárfestingar á Íslandi og hefur sett saman teymi sem verður spennandi að starfa með. Ég sé áhugaverð tækifæri á þessum markaði og tel að reynsla mín og bakgrunnur muni nýtast vel við þau verkefni sem eru framundan,“ segir Theodór.

Alfa Framtak er rekstraraðili sérhæfðra sjóða með áherslu á framtaksfjárfestingar með samtals 22 milljarða króna í áskriftarloforð. Fyrirtækið rekur sjóðina Umbreytingu I og Umbreytingu II og hefur hingað til fjárfest í sex rekstrarfélögum þ.e. – Nox Health, Borgarplast, Grafa og Grjót, Greiðslumiðlun Íslands, Málmsteypa Þorgríms Jónssonar og Travel Connect.

Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, segir Theodór vera öflugan liðsmann í stækkandi liðsheild. „Theodór kemur með verðmæta þekkingu inn í teymið og mun eflaust hafa víðtæk áhrif á starfsemina okkar á næstu árum.“