Þórhildur Rún Guðjónsdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra hjá heildversluninni Nathan & Olsen. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.

Þórhildur er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og starfaði síðast sem forstöðumaður viðskipta og markaðsmála hjá Isavia, þar sem hún bar ábyrgð á tekjum Keflavíkurflugvallar af öðru en flugi, markaðsmálum og farþegaupplifun.

„Við erum mjög ánægð með að hafa fengið Þórhildi til liðs við okkur. Hún er öflugur stjórnandi sem hefur mikla reynslu á fjölbreyttum sviðum sem mun án efa nýtast okkur vel í áframhaldandi þróun félagsins,“ segir Ari Fenger, eigandi Nathan & Olsen og forstjóri móðurfélagsins 1912.

Nathan & Olsen er ein stærsta og elsta heildsala landsins, stofnuð árið 1912 og fagnar því 110 ára afmæli í ár. Félagið stofnuðu Fritz Nathan og Carl Olsen og tveimur árum síðar gekk John Fenger til liðs við stofnendurna og í dag er langafabarn hans, Ari Fenger, við stjórnvölinn. Félagið sérhæfir sig í dag í sölu og markaðssetningu á snyrti- og dagvörumarkaði. Systurfélög þess eru Ekran og Emmessís.