Pálmi Rafn Pálmason hefur verið ráðinn sem íþróttastjóri KR, en hann kemur frá fyrirtækjaþjónustu VÍS. Þórunn Hilda Jónasdóttir hefur einnig verið ráðin til KR, sem markaðs- og viðburðarstjóri félagsins. Hún kemur frá Háskólanum í Reykjavík þar sem hún starfaði sem viðburðarstjóri á markaðssviði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KR.

Pálmi Rafn Pálmason hefur spilað með fótboltaliði KR frá árinu 2015. Hann spilaði með Stabæk og Lillestrøm í Noregi á árunum 2008-2014 við góðan orðstír og á að baki 18 A-landsleiki. Í tilkynningu segir að Pálmi muni hafa yfirumsjón með öllu faglegu starfi félagsins, umsjón með fræðslu og forvarnarstarfi ásamt því að vinna náið með deildum félagsins að áframhaldandi uppbyggingu þeirra, skipulagi og framkvæmd.

Þórunn Hilda Jónasdóttir mun ritstýra og sinna helstu miðlum félagsins sem og stjórna stærri viðburðum, ásamt því að vera öllum deildum og foreldraráðum innanhandar varðandi fjáraflanir. Hlutverk hennar hjá félaginu er jafnframt að þróa og viðhalda ímynd og vörumerki KR og afla nýrra markaðstækifæra, að því er kemur fram í tilkynningu frá KR.

Pálmi Rafn, íþróttastjóri KR:

„Það eru mjög spennandi tímar framundan hjá KR og ég get ekki beðið eftir því að taka til hendinni og vera þáttur í frekari uppbyggingu í félaginu."

Þórunn Hilda, markaðs- og viðburðarstjóri KR:

„Ég er virkilega spennt að koma inn í KR og taka þátt því öfluga starfi sem hér fer fram.“