Þau Helga Hrund, Hinrik Snær og Olga Ýr hafa gengið til liðs við þjónustu- og ráðgjafafyrirtækið Maven. Hjá Maven starfa nú 8 sérfræðingar á sviði upplýsingatækni og sérhæfa þau sig í því að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum í hagnýtingu gagna í rekstri.

Fyrirtækið fagnaði nýlega eins árs afmæli en er með háleitt markmið um að verða gagnafyrirtæki Íslands, að því er kemur fram í tilkynningu.

Helga Hrund Friðriksdóttir er með B.Sc. gráðu í Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og hefur góða þekkingu og reynslu í gagnagreiningu. Hún starfaði síðast hjá Marel sem sérfræðingur í viðskiptagreind.

Hinrik Snær Guðmundsson er með M.Sc. í gervigreind frá Universiteit van Amsterdam og B.Sc. í Tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Hinrik hefur undanfarið ár unnið sem sjálfstæður ráðgjafi og hjálpað fyrirtækjum að nýta nýjustu framfarir í gervigreind og gagnavísindum.

Olga Ýr Georgsdóttir lauk meistaranámi í Upplýsingastjórnun (e. Information Management) frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc í Viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein frá sama skóla. Olga starfaði síðast hjá ST2 (Stragile) sem sérfræðingur í gagnagreiningu og þar áður hjá Vinnumálastofnun.

“Það er frábært að fá þetta hæfileikaríka fólk til okkar. Útsjónarsemi, framsýni og þorsti þeirra að læra nýja hluti er það sem gerir þau frábæra viðbót.“ segir Helgi Hrafn framkvæmdastjóri Maven.