Arna Rut Arnarsdóttir, Gísli Guðjónsson og Kristján Patrekur Þorsteinsson hafa verið ráðin til Júní. Þetta kemur fram í tilkynningu. Júní er stafrænt þróunarfyrirtæki sem hefur boðið upp á heildstæða þjónustu við stafræna vegferð fyrirtækja. 

Arna Rut Arnarsdóttir er forritari sem gengur til liðs við Júní frá sprotafyrirtækinu Mynto. Þar áður var Arna hjá öðru sprotafyrirtæki, EatUp, ásamt því að vera stundakennari í Háskólanum í Reykjavík, en Arna lauk einmitt gráðu í tölvunarfræði frá sama skóla.

Gísli Guðjónsson, ráðgjafi, kemur til Júní frá New York þar sem hann kláraði M.Sc nám í Data Visualization við Parsons School of Design. Þar áður lauk hann hagfræðinámi við Háskóla Íslands. Gísli vann áður hjá Lífeyrissjóði Verslunarmanna.

Kristján Patrekur Þorsteinsson er hugbúnaðarsérfræðingur sem kemur til Júní frá Advania. Þar vann Kristján í fjölbreyttum verkefnum, m.a. fyrir lögregluna í Liechtenstein og umfangsmikil verkefni fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Hann lauk námi í hugbúnaðarverkfræði í Háskólanum í Reykjavík.

Guðmundur Sigurðsson, einn eigandi fyrirtækisins kveðst hamingjusamur með ráðningarnar, “Þetta er snilld".