Samkaup hafa ráðið Bryndísi Björk Ásmundsdóttur, Hjört Benjamín Halldórsson og Snorra Pál Blöndal, þrjá nýja sérfræðinga, á skrifstofu sína í vörustýringu, greiningum og reikningshaldi. Greint er frá ráðningu þeirra í fréttatilkynningu.

Bryndís Björk Ásmundsdóttir hefur verið ráðin sérfræðingur í greiningum. Hún starfaði áður sem verkefnastjóri virðisstýringar hjá A4 en þar á undan var hún hjá Vodafone, síðast sem sérfræðingur í virðisstýringu. Bryndís er með B.Sc. í sálfræði og MBA frá Háskóla Íslands. Hún hefur sérstakt dálæti á Excel og situr í stjórn faghóps Stjórnvísis um Excel. Hún mun koma til með að starfa þvert á svið Samkaupa og leiða vegferð félagsins inn í gagnadrifinn rekstur, þar sem stefnan er að hámarka nýtingu félagsins á þeim upplýsingum og gögnum sem það býr yfir.

Hjörtur Benjamín Halldórsson er nýr sérfræðingur í vörustýringu en hann starfaði áður sem sérfræðingur í innkaupum hjá Ölgerðinni. Þar á undan starfaði hann á innkaupasviði hjá Bauhaus. Hjörtur er með B.S. í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst og einkaflugnámspróf frá Flugskóla Íslands.

Snorri Páll Böndal hefur verið ráðinn verkefnastjóri reikningshalds. Hann starfaði áður hjá Deloitte sem aðstoðarmaður í deild viðskiptalausna. Snorri Páll er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann mun koma til með að stýra frekari nútíma- og sjálfvirknivæðingu reikningshalds.