Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Abler hefur bætt við sig fólki á undanförnum misserum. Nýir starfsmenn eru þau Ásdís Arna Gottskálksdóttir, sem verður fjármála- og rekstrarstjóri, Sverrir Rolf Sander, yfirmaður vöruþróunar, og Justin Zeppa, yfirmaður markaðsmála.

Abler sérhæfir sig í gerð hugbúnaðarlausna sem auðvelda skipulag íþrótta- og tómstundastarfs. Helsta vara félagsins, Sportabler, er notuð af flestum íþróttafélögum hér á landi. Abler tryggði sér fjármögnun frá Frumtaki í haust til áframhaldandi þróunar lausna félagsins og uppbyggingu sölu- og markaðsstarfs á alþjóðlegum mörkuðum.

Ásdís Arna Gottskálksdóttir er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Ásdís kemur frá tölvuleikjafyrirtækinu Parity þar sem hún var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Ásdís hefur reynslu í þróun hugbúnaðarlausna fyrir fjármálamarkaðinn þar sem hún starfaði áður hjá Five Degrees/Libra í næstum tvo áratugi.

Sverrir Rolf Sander er með B.Sc gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla í gagnavísindum með áherslu á máltækni. Sverrir hefur reynslu í upplýsingatækni en hann leiddi meðal annars máltæknideild á gervigreindarsviði Samsung í Þýskalandi.

Justin Zeppa er með BFA gráðu í kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu frá New York háskóla og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Ásamt því að vinna fyrir Abler þá er hann með hlaðvarpið „Old Movie Time Machine“.

„Við erum stolt af því að bjóða þessa öflugu starfsmenn velkomna í Abler fjölskylduna. Reynsla þeirra og þekking munu gera okkur kleift að þróa enn öflugri vörur og þjónusta fyrir viðskiptavini okkar og notendur. Þessi liðsstyrkur er hluti af því að skapa “meistaradeildar-teymi” sem setur markið hátt og ætlar sér að vera leiðandi þátttakandi í samfélagslega mikilvægu starfi um heim allan,” segir Markús Máni M. Maute framkvæmdastjóri Abler