Agla Jónsdóttir hefur tekið við af Kristjáni Elvari Guðlaugssyni sem fjármálastjóri Domino‘s á Íslandi. Agla er afar kunnug starfsemi fyrirtækisins en hún var fjármálastjóri þess á árunum 2010-2018, þar af var hún einnig fjármálastjóri fyrir Domino’s í Noregi og Svíþjóð frá árinu 2014.

Undanfarin þrjú ár hefur hún verið fjármálastjóri Eyju fjárfestingarfélags þar sem hún sá um fjármálin hjá Gló, Brauð & co, Snaps og Joe & the Juice en hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri þess síðastnefnda frá byrjun árs. Agla hefur því unnið náið með Birgi Bieltvedt, sem á Eyju með eiginkonu sinni Eygló Kjartansdóttur, frá því að hann keypti Domino‘s á Íslandi árið 2011. Eyja er stærsti hluthafi PPH sem keypti nýverið Domino‘s hér á landi en Agla tók þátt í kaupferlinu í vetur.

„Það hafði líka áhrif að Magnús Hafliðason var ráðinn forstjóri Domino‘s en við höfum unnið lengi og vel saman, bæði á Íslandi og í Noregi,“ segir Agla, spurð um nýju stöðuna.

Agla tók B.Sc í alþjóðamarkaðsfræðum frá Háskólanum í Reykjavík 2001 og lauk meistaragráðu í EU Business and Law árið 2004 frá viðskiptaháskólanum í Árhúsum. Í millitíðinni bjó hún tímabundið í Hamborg í Þýskalandi og vann á alþjóðasviði hjá Vereins und Westbank. Eftir meistaragráðuna flutti hún heim og kynntist manninum sínum Ásmundi Ívarssyni hjúkrunarfræðingi. Saman eiga þau þrjá drengi.

Agla er mikil handboltakona en hún spilaði með FH til 22 ára aldurs. Þá færði hún sig yfir til Hauka og spilaði með þeim í sex ár en lagði svo skóna á hilluna þegar hún flutti erlendis. Agla er enn þá Haukakona í gegn og missir ekki af leik vina sinna úr Hafnarfirðinum.

Agla hlakkar mest til þess að fá að ferðast. Það sem er búið að vera erfiðast við Covid tímana að hennar sögn er skert ferðafrelsi. Hún segist helst vilja vera með tvö flug bókuð á hverjum tíma og bíður nú spennt eftir seinni bólusetningunni.

„Það sem stendur upp úr af mínum ferðalögum eru ítölsku alparnir með öll sín ólíku menningarsamfélög og fjölbreyttu matargerð.“ Agla elskar einnig Berlín og Berlínarbúa sem hún telur með þeim jákvæðustu í Evrópu. Hawaii ber hins vegar af sem áfangastaður að hennar sögn en þar synti hún með skjaldbökum í heitum sjónum. „Hawaii er ekki svo ósvipað Íslandi í landslagi bara heitara og sjórinn stórkostlegur auk þess sem þar er hægt að fá langbesta kaffi veraldar.”