Ólöf Finnsdóttir hefur verið skipuð skrifstofustjóri Hæstaréttar frá 1. ágúst næstkomandi til 5 ára, en frá og með þeim degi mun Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, láta af störfum fyrir aldurs sakir. Þorsteinn hefur gegnt embættinu frá árinu 2004. Greint er frá ráðningu Ólafar á vef Hæstaréttar .

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í síðasta mánuði sóttu 17 manns um embætti skrifstofustjóra Hæstaréttar .

Ólöf hefur verið framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar frá stofnun hennar árið 2017. Áður var hún framkvæmdastjóri dómstólaráðs á árunum 2011 til 2017 og skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur á árunum 2006 til 2011.

Ólöf lauk laganámi frá Háskóla Íslands árið 1988 og framhaldsnámi í lögfræði frá Cambridge University árið 2002.