Valdimar Karl Sigurðsson, viðskiptafræðingur, hefur verið ráðinn fjármálastjóri hjá Wedo ehf. sem rekur vefverslunina Heimkaup.is, Hópkaup og Bland. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að ráðning Valdimars sé liður í að styrkja innviði Wedo til að takast á við þann mikla vöxt sem verið hefur hjá félaginu á síðustu árum og sem stefnt sé að á næstu árum. Valdimar hefur síðustu rúm níu ár starfað hjá endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækinu KPMG, á endurskoðunarsviði á árunum 2010-2016 og frá árinu 2016 á ráðgjafarsviði.

Valdimar er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík með M.Sc. gráðu í fjármálum fyrirtækja og M.Sc. gráðu í reikningshaldi og endurskoðun.