Védís Eva Guðmundsdóttir hefur bæst í hóp eigenda hjá lögmannsstofunni Rétti – Aðalsteinsson & Partners. Védís Eva, sem hefur starfað á stofunni frá árinu 2020, hefur reynslu af mannréttindamálum og Evrópurétti.

Hún starfaði áður hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel, við EFTA dómstólinn í Lúxemborg og hjá Mörkinni lögmannsstofu. Þá sinnti hún málflutningi í fyrsta málinu sem rekið var gegn íslenska ríkinu hjá yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg árið 2019. Védís Eva lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2015 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2017.

Helstu starfssvið Védísar Evu eru Evrópuréttur, mannréttindi, hugverkaréttur, persónuvernd, samningagerð og skaðabótaréttur, auk málflutnings.

„Réttur er framsækin lögmannsstofa sem er skipuð þrautseigum lögmönnum sem hafa brennandi hugsjón og trú á mikilvægi þess að standa vörð um grundvallarréttindi okkar allra. Ég er full tilhlökkunar að takast á við nýtt hlutverk hjá Rétti og hlakka til að vinna áfram með öflugu teymi stofunnar í krefjandi verkefnum,“ segir Védís Eva í tilkynningu.

Hjá Rétti starfa nú alls 14 manns og eru eigendur fimm, þar af tveir með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti en stofan var stofnuð af Ragnari Aðalsteinssyni.