Konráð S. Guðjónsson hefur verið ráðinn hagfræðingur Viðskiptaráðs þar sem hann mun hefja störf á næstu dögum. Konráð hefur undanfarin ár starfað sem sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka þar sem hann hefur unnið að fjölbreyttum greiningum á efnahagslífinu. Hann er að vonum spenntur fyrir að hefja störf fyrir Viðskiptaráð og gerir ráð fyrir að fyrstu vikurnar fari að miklu leyti í undirbúning Viðskiptaþings sem haldið verður í febrúar.

Konráð segir áhugamálin tengjast að stóru leyti vinnunni það er efnahagslífinu og samfélagsmálum í víðu samhengi. „Svo hef ég mjög gaman af íþróttum og tónlist og sérstakt áhugamál hjá mér er stangveiði, aðallega þá laxveiði,“ segir Konráð en hann vann um tíma sem leiðsögumaður við Hofsá.

„Ég hef veitt allt frá því ég var fimm ára í raun og veru. Á sumrin á meðan ég var í skóla og sérstaklega eftir að ég fékk bílpróf þá var ég að veita leið­ sögn, fyrst og fremst við Hofsá. Svo hef ég gert það í og með, síðast í sumar, þegar ég nýtti hluta sumarfrísins í það,“ segir hann. „Hofsá er númer eitt, tvö og þrjú, það er heimaáin ef svo má að orði komast því ég er frá Vopnafirði þannig að maður tengist henni allt að því fjölskylduböndum, þetta er nánast bæjarlækurinn.“

Konráð hefur komið víða við á hnettinum við hagfræðistörf en hann vann meðal annars á skrifstofu forsetans í Tansaníu á vegum bresku hugveitunnar ODI en það var hluti af verkefni sem gengur út á að senda hagfræðinga til þess að starfa hjá opinberum stofnunum eða ráðuneytum í þróunarlöndum. „Ég sló til og fór í þetta en ég dró svolítið stutta stráið við að fara akkúrat í þetta verkefni, ekki af því að Tansanía sé slæm, heldur höfðu verið ákveðnir erfiðleikar bundnir því að nýta starfskrafta þeirra sem sendir voru út. Ég reyndi mitt besta í fjóra mánuði en sá svo verk forvera minna safna ryki. Þá hugsaði ég að tíma mínum væri betur varið í annað. Engu að síður var þetta mjög skemmtileg reynsla og fínt að búa í Tansaníu. Tungumálabilið var svolítið breitt, þarna tala allir fyrst og fremst Svahílí og maður var farinn að ná einhverjum tökum á því en ekkert eins og innfæddur á örfáum mánuðum,“ segir hann.

Þá segir hann að þróunarsamvinna hafi átt við hann og útilokar ekkert í framtíðinni. „Já, ég hef nokkurn áhuga á því. Ég var að velta því fyrir mér og vildi á tímabili fara í þessa átt. Ég útiloka það ekki enn að ég muni gera það aftur. Í dag er ég að fá útrás fyrir þennan áhuga með því að sitja í stjórn samtaka sem heita CLF á Íslandi og hétu áður Alnæmisbörn en þau styrkja verkmenntaskóla fyrir ungar stúlkur í Úganda,“ segir Konráð.