Eðvarð Ingi Björgvinsson hefur verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri Héðins. Eðvarð mun starfa við hlið Rögnvaldar Einarssonar, núverandi framkvæmdastjóra, fram að áramótum og tekur þá að fullu við starfi framkvæmdastjóra.

Eðvarð hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri dótturfélagsins Héðinshurða og þar áður stýrði hann Kongsbergdeild Héðins frá árinu 2016 til 2020.

„Við fögnum því að fá Edda heim í móðurfélagið. Hann gjörþekkir hvern krók og kima í starfseminni,“ segir Rögnvaldur Einarsson, framkvæmdastjóri Héðins, í tilkynningu.

Héðinn sérhæfir sig í málmiðnaði og véltækni og sinnir fjölbreyttri þjónustu við sjávarútveg, stóriðjufyrirtæki og orkuframleiðendur. Fyrirtækið var stofnað árið 1922 og fagnaði því aldarafmæli á síðasta ári.

„Það er mikill heiður að fá að leiða Héðin inn í þá spennandi tíma sem fram undan eru í sjávarútvegi og iðnaði, þá sérstaklega í tengslum við orkuskipti og nýja framleiðslutækni. Fyrirtækið býr yfir gríðarlega mikilli sögu og þekkingu sem mikilvægt er að byggja framtíðina á,“ segir Eðvarð Ingi sem er lærður vélvirkjameistari og framhaldsskólakennari ásamt því að stunda nám við rekstrarfræði í Háskóla Reykjavíkur.

Héðinn annast meðal annars þjónustu á Íslandi fyrir norska fyrirtækið Kongsberg Maritime, þar á meðal sölu búnaðar og lausna frá Kongsberg og Rolls Royce Marine, uppsetningu, endurnýjun, viðhald og viðgerðir véla og vélbúnaðar.