Anna Kristín Pálsdóttir, sem hefur gengt stöðu framkvæmdastjóra nýsköpunar og þróunar hjá Marel, verður framkvæmdastjóri Marels í Norður-Ameríku. Hún mun gegna báðum stöðum samhliða og starfa undir stjórn Lindu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs og mannauðs Marels.

„Anna Kristín mun bera ábyrgð á þróun vaxtastefnu Marel í Norður-Ameríku í takt við stefnu Marel og í nánu samstarfi við önnur svið félagsins. Mikil áhersla verður lögð á starfsfólkið, samstarf þeirra og starfsþróun. Anna Kristín mun styðja við framtíðarsýn fyrirtækisins og vinna að enn frekari þróun viðskiptasambanda í samvinnu við aðra starfsmenn Marel í Norður-Ameríku,“ segir í fréttatilkynningu.

Anna Kristín gekk til liðs við framkvæmdarstjórn Marels þegar hún tók stöðu framkvæmdastjóra nýsköpunar og þróunar árið 2020. Frá því hún hóf störf hjá Marel árið 2015 hefur hún gegnt ýmsum stjórnunarstörfum.

Anna Kristín útskrifaðist með M.Sc. í Global Production Engineering frá Tækniháskólanum í Berlín árið 2015. Hún er með B.Sc. gráðu í verkfræðistjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

„Ég er mjög spennt fyrir því að Anna Kristín skuli taka þessa stöðu að sér, til viðbótar við hlutverk sitt sem framkvæmdastjóri nýsköpunar og þróunar. Anna Kristín hefur einstakan drifkraft og mikla ástríðu fyrir vegferð okkar, sem hún hefur sýnt með skýrum hætti undanfarin ár og átt mikinn þátt í því að færa nýsköpunarstarfsemi okkar á hærra stig. Með rekstrarlíkani Marel erum við að færa nýsköpun enn nær mörkuðum og viðskiptavinum okkar. Ég er þess fullviss að með þessar áherslur muni notendamiðuð þjónusta okkar styrkjast enn frekar við hlið almennrar samvinnu innan fyrirtækisins,“ segir Linda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðs Marels.

„Norður-Ameríkumarkaðurinn er mjög kraftmikill og opinn fyrir breytingum ásamt því að vera heimamarkaður nokkurra af okkar stærstu viðskiptavinum. Til þess að nýta þessi tækifæri til fullnustu og ná metnaðarfullum vaxtaráætlunum okkar þurfum við að halda áfram að þróast og efla jákvæða upplifun viðskiptavina enn frekar – eitthvað sem ég hlakka mikið til að gera ásamt frábæru teymi sem starfar í Norður-Ameríku,“ segir Anna Kristín Pálsdóttir.