Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri tilkynnti að Vigdís Finnbogadóttir hefði verið gerð að heiðursborgara í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. Borgarráð samþykkti tillögu Hönnu Birnu borgarstjóra þess efnis á fundi ráðsins í morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en í tilefni af áttatíu ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur heiðra borgaryfirvöld hana með því að gera hana að heiðursborgara í Reykjavík.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri rifjaði upp við athöfnina að ævi Vigdísar væri samofin sögu Reykjavíkur. Vigdís og hennar kynslóð væri í raun fyrsta borgarkynslóðin í Reykjavík. Vigdís hefði hvergi dregið af sér í þágu borgar og þjóðar.   Hanna Birna vakti sérstaka athygli á framlagi Vigdísar til íslenskrar kvennabaráttu.

„Kjör Vigdísar markaði ekki aðeins söguleg tímamót hérlendis og erlendis,“ sagði hún og benti á að Vigdís hefði orðið kynslóðum íslenskra kvenna fyrirmynd, eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.

„Framganga hennar, hugrekki og festa, hefur beinlínis haft mótandi áhrif á sjálfsmynd okkar í áratugi. Hún hefur hvatt okkur konur til dáða, talið okkur trú um að ekkert sé okkur ómögulegt og þar af leiðandi stuðlað að því að við höfum beitt okkur af enn meira afli í þágu okkar góða samfélags í borginni og landinu öllu.“   Saga Vigdísar Finnbogadóttur og Reykjavíkur hefur verið samofin í 80 ár. Vigdís er fædd í Tjarnargötu 14 í Reykjavík þann 15. apríl 1930. Síðar fluttist hún á Ásvallagötu og ólst þar upp. Vigdís lauk stúdentsprófi úr máladeild Menntaskólans í Reykjavík árið 1949. Hún stundaði háskólanám í París, Kaupmannahöfn og í Uppsölum, auk Háskóla Íslands.

Hún hefur kennt frönsku við Menntaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Hamrahlíð. Ennfremur var hún leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur í átta ár. Hún var fyrst kvenna í heiminum kosin forseti í lýðræðislegum kosningum, þann 29. júní 1980. Vigdís var fjórði forseti lýðveldisins og gegndi forsetaembætti frá árinu 1980 til 1996.   Tveir Reykvíkingar hafa áður verið gerðir heiðursborgarar í Reykjavík, þeir séra Bjarni Jónsson  árið 1961 og Kristján Sveinsson augnlæknir árið 1975.