Í byrjun mánaðar tók Helena Gunnars Marteinsdóttir við sem verkefnastjóri markaðsmála hjá Langasjó. Er um að ræða nýtt starf innan samstæðunnar, sem einblínir á framleiðslu og dreifingu matvæla ásamt útleigu íbúðarhúsnæðis til einstaklinga. Dótturfyrirtækin sem starfa undir Langasjó eru Alma íbúðafélag, Mata, Matfugl, Salathúsið og Síld og fiskur. Helena segir fyrstu vikurnar í nýja starfinu hafa verið skemmtilegar og viðburðaríkar. Hún gleðjist yfir að fá að stýra markaðsmálum félagsins og segir það m.a. mikinn heiður að koma að markaðssetningu Ali vörumerkisins, sem hefur löngum verið nátengt þjóðarsálinni.

„Þegar mér var boðið starfið var ég mjög fljót að samþykkja það, þar sem ég sá að starfið er mjög lifandi og fjölbreytt. Ég mun einblína á markaðsmál samstæðunnar í víðu samhengi og það eru mörg spennandi verkefni á döfinni hjá Langasjó, bæði vöru- og viðskiptaþróunarverkefni sem og stafræn umbreytingarverkefni. Dótturfélögin eru leiðandi á sínum mörkuðum og alls starfa 340 starfsmenn hjá samstæðunni."

Áður starfaði Helena um fimm ára skeið sem markaðsstjóri NTC og fyrir það við hin ýmsu sölu- og markaðsstörf í Kaupmannahöfn. Þangað fluttist hún 19 ára gömul að loknu námi við Verslunarskólann til að setjast á skólabekk við CPH Business. Hún segir það hafa verið þroskandi reynslu fyrir unga konu að hafa þurft að standa á eigin fótum í nýju landi. Bjó hún í dönsku höfuðborginni í um sex ár og starfaði um tíma hjá Reckitt þar sem hún var m.a. með heimsþekkt neytendavörumerki fyrir Norðurlandamarkaðinn á sínum snærum.

Helenu líður best í faðmi fjölskyldunnar en hún býr í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt manni sínum, húsasmiðnum Bernharð Arinbjarnarsyni og syni þeirra Arinbirni Kára sem er eins og hálfs árs. Helena er fæddur og uppalinn Vesturbæingur og kveðst hvergi annars staðar vilja búa. „Við erum að ala upp lítinn KR-ing,“ segir hún kímin.

„Mér finnst mjög gaman að ferðast og kynnast matarmenningu mismunandi landa. Mér finnst einnig frábært að fara á skíði og snjóbretti," bætir hún við.

Þá hefur Helena verið að spreyta sig áfram í golfi, en kveðst þó alls ekki hafa upplifað neina byrjendaheppni. „Ég festi kaup á golfsetti fyrir skömmu síðan og eitt af markmiðum næsta árs er að verða betri í golfi. Það verður gaman að vinna að þessu markmiði með hækkandi sól."

Nánar er rætt við Helenu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .