Stjórn Sýnar hefur gengið frá ráðningu Yngva Halldórssonar, sem forstjóra félagsins. Hann tekur við starfinu af Heiðari Guðjónssyni sem hefur gegnt starfinu frá því í apríl 2019.

Yngvi hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra rekstarsviðs Sýnar frá árinu 2019. Að auki sat hann í stjórn fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins á árunum 2014-2019.

Áður en hann hóf störf hjá Sýn var Yngvi meðeigandi hjá fjárfestingarfélaginu Alfa Framtak, sem rekur m.a. framtakssjóðinn Umbreytingu. Yngvi starfaði þar áður hjá Össuri um tíu ára skeið, síðast sem síðast sem framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs, verkefnastofu og ferlaumbótasviðs.

Á árunum 2000-2005 starfaði hann sem ERP ráðgjafi í Dynamics Nav hjá Maritech ehf. Þá starfaði Yngvi sem sjóðstjóri erlendra hlutabréfasjóða hjá Landsvaka á árunum 2006-2008.

Hann er með B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Petrea I. Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Sýnar:

„Það er mikilvægt við núverandi aðstæður að tryggja áframhaldandi festu í rekstri félagsins. Yngvi þekkir afar vel til félagsins og því mikill fengur að fá hann til að leiða daglegan rekstur þess.”

Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar:

„Ég hlakka til að takast á við þessa áskorun í samstarfi við allt það framúrskarandi fólk sem starfar hjá félaginu. Þá mun ég leggja mig allan fram um að leiða félagið áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð.”