Alls eiga um 114 milljónir manns rafmyntina bitcoin í dag. Þeir tíu þúsund reikningar sem fara með stærstan hlut eiga samtals um 5 milljónir af rafmyntinni að andvirði 232 milljörðum dala, samkvæmt rannsókn NBER.

Alls eru um 19 milljónir af rafmyntinni í umferð. Því fer 0,01% af stærstu eigendum bitcoin með 27% hlutdeild af rafmyntinni. Ójöfnuðurinn í heimi rafmynta er því minni en í hagkerfi Bandaríkjanna þar sem 1% af heimilum fer með tæplega þriðjung alls auðæfa, að því er kemur fram í umfjöllun WSJ .

Rannsóknin kortlagði og greindi allar færslur með bitcoin í þrettán ára sögu rafmyntarinnar. Rannsóknin var framkvæmd af fjármálaprófessorunum Antoinette Schoar hjá MIT Sloan School of Management og Igor Makarov hjá London School of Economics.

Sjá einnig: Bitcoin eins og klæðalaus keisari

Höfundarnir benda á að afleiðingar samþjöppun á rafmyntinni hafi í för með sér að allt bitcoin-kerfið sé viðkvæmara fyrir kerfisáhættu. Einnig leiði þetta til að ávinningur verðhækkana fari fyrst og fremst til hlutfallslega lítils hóps fjárfesta.

Gengi bitcoin hefur hækkað verulega á undanförnum árum en verð rafmyntarinnar stóð í tæplega 7.200 Bandaríkjadollurum í ársbyrjun 2020 en stendur í dag í 46,2 þúsund dollurum. Gengi rafmyntarinnar fór hæst upp í 67,7 þúsund dali í síðasta mánuði.