Greining Glitnis spáir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs milli nóvember og desember, og að í kjölfarið hækki tólf mánaða verðbólga í 5,6% úr 5,2%. Gangi spáin eftir verður verðbólga á ársgrundvelli ríflega 3 prósentustigum yfir markmiði Seðlabankans og meiri en verið hefur frá mars síðastliðnum, samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis.

Hækkanir á eldsneyti, húsnæði og matvöru draga vagninn
Þar segir að áframhaldandi verðhækkanir húsnæðis, eldsneytis og matvöru séu þeir þættir sem spila stærsta hlutverkið í þessari þróun. Gengislækkun krónunnar og hátt olíuverð á alþjóðamörkuðum hefur leitt til verðhækkunar eldsneytis hér á landi og þá virðist vera nokkur þrýstingur til staðar á matvörumarkaði sem skilar sér í hærra matvöruverði á næstu vikum. Loks benda mælingar til þess að húsnæðisverð fari enn hækkandi. Greining Glitnis gerir þó ráð fyrir að broddurinn fari fljótlega úr hækkunum á húsnæðismarkaði og að framundan sé tímabil sem mun einkennast af hófsamari verðhækkun á húsnæði.

Töluverð verðbólga áfram
Gengi krónunnar hefur lækkað um 7-8% það sem af er nóvember. Þetta gerir það að verkum að  verðbólguhorfur til skamms tíma nú verri en fyrir mánuði síðan. Engu að síður telur Greining Glitnis að horfur til lengri tíma séu góðar og að draga muni úr verðbólgu á næsta ári.