Verðbólga á evrusvæðinu var 0,5% í júní og helst hún því óbreytt frá fyrri mánuði. Verðbólgan hefur ekki verið lægri í fjögur ár en Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, birti verðbólgutölur í morgun, að því er fram kemur á vef Financial Times . Mest var hækkunin á matvöru og orku, eða 0,8%, samanborið við 0,7% hækkun í maí.

Verðbólgan helst talsvert undir verðbólgumarkmiði evrópska seðlabankans en markmiðið er um 2%. Miklar áhyggjur hafa verið uppi vegna lágrar verðbólgu og hafa sérfræðingar talsverðar áhyggjur af verðhjöðnun á evrusvæðinu. Í því ljósi var nýlega gripið til umfangsmikilla aðgerða, svosem neikvæðra stýrivaxta, til að koma í veg fyrir verðhjöðnun. Sérfræðingar spá því að seðlabankinnn grípi ekki til stórvægilegra aðgerða í þessari viku til að bregðast við verðbólgutölunum, en benda á að því lengur sem verðbólgan standi í stað, því meiri líkur á frekari aðgerðum.