Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu í gær, fimmtudag.

Í flestum tilvikum var einungis 1 krónu verðmunur á verslun Bónuss og Krónunnar á þeim vörum sem fáanlegar voru í báðum verslunum. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun Nóatúns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Af þeim 29 vörutegundum sem skoðaðar voru var Nóatún með hæsta verðið í 13 tilvikum en Hagkaup reyndist með hæsta verðið á 11 vörutegundum og Samkaup-Úrval á 10 vörum.

Hjá Bónus var verðið lægst á 26 vörum af þeim 29 sem skoðaðar voru.

Á 13 af þeim 18 vörutegundum sem fáanlegar voru bæði í Krónunni og Bónus var einungis einnar krónu verðmunur milli verslananna. Sífellt erfiðara reynist að bera saman verð á vörum milli lágvöruverðsverslana þar sem mikið er um að pakkningstærðir á vörum séu ekki hinar sömu hjá verslunum.

Mestur verðmunur í könnuninni var 153% á kílóverði af jöklasalati sem var dýrast í Hagkaupum þar sem það kostaði kr. 479 en ódýrast í Bónus kr.189.

Minnstur verðmunur var á kílóverði af Alí spægipylsu sem kostaði  kr. 2.781 í Nóatúni, Samkaupum og Fjarðarkaupum en kr. 2.503 í verslun Bónuss.

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Bónus Holtagörðum, Krónunni Fiskislóð, Nettó í Mjódd, Kaskó Vesturbergi, Hagkaupmum Holtagörðum, Nóatúni Austurveri, Samkaupum Úrval Miðvangi og Fjarðarkaupum Hólshrauni.