Verslunarkeðjan 10-11 opnaði í dag 19. janúar, nánartiltekið klukkan 9, endurbætta verslun í Lágmúla. Meðal helstu nýjunga er fullbúið þjónustuborð, sem býður upp á bæði heita og kalda tilbúna rétti frá morgni til kvölds, það fyrsta og eina sinnar tegundar á Íslandi. Hugmyndin með þessum breytingum er að koma enn frekar til móts við þarfir nútímafólks og verður verslunin sem fyrr opin allan sólarhringinn allt árið segir í tilkynningu félagsins.

Þessara rétta má neyta á staðnum eða taka með sér í handhægum bökkum. Sérstök áhersla verður á morgunverð með miklu úrvali af hollum og góðum réttum. Í hádeginu og á kvöldin er boðið upp á fjölda heitra rétta auk spennandi kaldra rétta. Margir girnilegir sjálfsafgreiðslubarir eru einnig í versluninni ? má þar nefna salatbar, samlokubar, ávaxtabar, sælgætis- og hnetubar.

Með opnun þessarar gjörbreyttu 10 -11 verslunar Lágmúla má segja að loksins sé komin alvöru þægindaverslun að erlendri fyrirmynd til Íslands. Mworldwide, breskt hönnunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun þægindaverslana og hefur unnið mikið fyrir hina vinsælu bresku verslunarkeðju Tesco, hannaði nýju 10-11 verslunina. Sérstaklega er hugað að því að viðskiptavinir geti verið snöggir að versla og er versluninni þannig skipt í tvö svæði, fremra svæðið þar sem áherslan er á matvöru sem neyta á strax og innra svæði þar sem er hefðbundin matvöruverslun.

Unnið er að því að breyta öllum verslununum 10-11 í hið nýja form. Fyrst um sinn verður þó mest úrval tilbúinna rétta í Lágmúlanum.