Ákveðið hefur verið að færa rekstrarfélag 10-11 út úr Hagasamstæðunni og selja það í opnu söluferli. Undirbúningur er þegar hafinn að sölu 10-11 verslananna og gert er ráð fyrir að fyrirtækið fari í sölu á næstu mánuðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka en með þessum breytingum fækkar matvöruverslunum í eigu Haga um röskan þriðjung. Arion banki hefur sem kunnugt er tekið yfir eignarhlut 1998 ehf. í Högum og fer því með stjórn félagsins.

Fram kemur að Eignabjarg ehf., eignarhaldsfélag Arion banka sem fer með eignarhlut bankans í Högum, hefur falið fyrirtækjaráðgjöf bankans að hefja undirbúning að sölu á öllum hlutum eignarhaldsfélagsins í rekstrarfélagi 10-11. Unnið er að aðskilnaði félagsins frá Hagasamstæðunni og gert er ráð fyrir að tilkynnt verði um endanlega tilhögun og framkvæmd söluferlis á næstu vikum.

Verslanir 10-11 hafa verið starfræktar frá árinu 1991 og verið hluti af Hagasamstæðunni frá árinu 1999. Nú eru reknar 23 verslanir undir nafni 10-11 víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, í Reykjanesbæ og á Akureyri og starfa þar samtals um 230 starfsmenn.

Fram kemur í tilkynningunni bankinn hafi að undanförnu orðið þess áskynja að mikill áhugi sé á félaginu.

Þá er vísað til þess að í sátt Samkeppniseftirlitsins og Arion banka, sem gerð var í kjölfar yfirtöku bankans á Högum, hafi Samkeppniseftirlitið beint þeim tilmælum til bankans að kanna möguleika á því að selja Haga í fleiri en einum hluta í því skyni að auka samkeppni.

„Sölu á 10-11 verslunum Haga er þannig m.a. ætlað að dreifa eignarhaldi á matvörumarkaði og gefst fleiri aðilum nú kostur á að láta að sér kveða á þeim vettvangi en verið hefur. Þannig er bankinn að koma til móts við sjónarmið samkeppni án þess að fórna fjárhagslegum hagsmunum,“ segir í tilkynningunni frá Arion banka.

Þá kemur fram að hlutdeild 10-11 í matvöruveltu Haga er tæp 7%. Eftir söluna á 10-11 fækkar matvöruverslunum Haga úr 61 í 38.

„Það er ekki hlutverk bankans að reka verslanir og það er auðvitað ákveðinn liður í endurreisn íslensks viðskiptalífs að koma verslunum Haga í eðlilegan farveg,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka í tilkynningunni.

„Þegar við seljum þessar 23 verslanir sér gefum við fleiri aðilum kost á að koma inn á íslenska matvörumarkaðinn. Nýir eigendur munu eflaust láta að sér kveða í samkeppni á markaðnum með því að breyta áherslum og nýta vel það viðskiptatækifæri sem öflugt vörumerki, umtalsverð velta og góðar staðsetningar verslana fela í sér.“