Ekki stendur til að breyta 10-11 verslunum í Iceland verslanir. Eins og greint var frá á forsíðu Viðskiptablaðsins í dag stefnir Jóhannes Jónsson, oft kenndur við Bónus, að því að opna nokkrar Iceland verslanir hér á landi í samstarfi við Malcolm Walker, stofnanda og eiganda Iceland Foods.

Jóhannes vildi ekki staðfesta hversu margar verslanirnar yrðu eða hvar þær verða staðsettar. Verið væri að skoða nokkur 4-5.000 fermetra húsnæði.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fóru fram viðræður við eigendur 10-11 verslananna um að breyta þeim verslunum, í það minnsta stærri 10-11 verslunum, í Iceland verslanir. 10-11 er sem kunnugt er í eigu Árna Péturs Jónssonar, fyrrv. forstjóra Teymis og samstarfsmanni Jóhannesar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar til margra ára.

Þessu neitar Árni Pétur og segir það ekki standi til að breyta 10-11 verslunum í Iceland verslanir. Hann sagðist lítið vita um málið annað en það sem fram hafi komið í Viðskiptablaðinu í morgun en þó að Jóhannes hafi þreifað fyrir sér með húsnæði.

„Ég hef ekki átt í viðræðum við þá feðga um rekstur eða starfsemi 10-11,“ segir Árni Pétur í samtali við Viðskiptablaðið. Aðspurður sagðist hann enga aðkomu hafa að nýjum verslunum Jóhannesar.

Árni Pétur keypti sem kunnugt er rekstur 10-11 af Eignabjargi, dótturfélagi Arion banka, í júní sl. 10-11 var áður hluti af Hagasamstæðunni, sem rekur Hagkaup, Bónus og fleiri verslanir. Þá keypti 10-11 jafnframt verslanir 11-11 út úr Kaupáss samstæðunni (sem rekur m.a. Nóatún og Krónuna) í mars sl.

Árni Pétur Jónsson forstjóri á aðalfundi Teymis 2. september 2009.
Árni Pétur Jónsson forstjóri á aðalfundi Teymis 2. september 2009.
© Hörður Kristjánsson (VB MYND/ HKR)

Árni Pétur Jónsson, eigandi 10-11.