*

miðvikudagur, 20. október 2021
Erlent 11. janúar 2021 19:05

10-20% muni skipta um starfsvettvang

Yfirmaður hjá Deutsche bank telur að þónokkur hluti atvinnulausra vegna faraldursins finni sér annað að gera.

Júlíus Þór Halldórsson
Jan segir aukna tilfærslu vinnuafls milli atvinnugreina vegna heimsfaraldursins óhjákvæmilega.
Aðsend mynd

Efnahagsáhrif heimsfaraldursins á vinnumarkaðinn eru helst til þau að ýta undir og flýta fyrir þróun sem þegar var að eiga sér stað, að mati Jan Olsson, framkvæmdastjóra Deutsche bank á Norðurlöndunum. Það muni fela í sér tilfærslu margra sem missa vinnuna milli starfsgreina.

Þótt margar atvinnugreinar hafi orðið illa úti bendir hann á að aðrar hafi ýmist sloppið vel, eða jafnvel fengið byr undir báða vængi. „Hluti sumra greina hefur komið mjög vel út úr ástandinu, og mun bæta við sig starfsfólki á næstunni. Tæknigeirinn var þegar í miklum uppgangi, en hann tvíefldist þegar faraldurinn skall á,“ segir hann og tekur dæmi af fjarskiptum.

„Þau tæki og tól sem þarf fyrir fjarvinnu og fjarfundi voru þegar til staðar og í notkun, en útbreiðsla þeirra margfaldaðist yfir nótt; þróun sem annars hefði tekið mun lengri tíma. Heilt yfir er staðan sennilega betri en á horfðist í upphafi síðasta árs.“

Sjá einnig: „Fólk er fljótt að gleyma“

Ný fyrirtæki taka við af þeim föllnu
Þannig muni aukin umsvif sumra greina vega upp á móti samdrætti annarra, með tilheyrandi tilfærslu framleiðsluþátta. „Aukið atvinnuleysi er óhjákvæmilegt í sumum greinum, en aukin eftirspurn eftir vinnuafli í öðrum mun hjálpa þeim sem missa vinnuna að fóta sig á nýjan leik.“

Slík tilfærsla muni þó að mestu gerast í litlum skrefum. Í stað gjaldþrota fyrirtækja komi sambærileg, en þó að einhverju leyti ólík fyrirtæki. „Flestir munu finna sér ný störf innan sama geira, en 10-20% munu sækja á ný mið.“

Jan tekur dæmi úr sinni eigin starfsgrein, fjármálaheiminum, hvar fjártækni hefur vaxið ásmegin síðustu ár á kostnað hefðbundinnar bankaþjónustu á borð við net útibúa, sem fer ört fækkandi.

„Þetta er þróun sem hófst löngu fyrir faraldurinn, þótt hann hafi að sjálfsögðu ýtt enn frekar undir hana. Þannig hafa áhrifin frekar verið þau að flýta fyrir því sem þegar var að gerast heldur en að hrinda af stað þróun sem ekki var í gangi fyrir.“

Nánar er rætt við Jan í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Deutsche bank Jan Olsson