Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing afhenti 137 nýjar flugvélar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, sem er 32% aukning á milli ára. Á sama tíma afhenti evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus, sem er helsti samkeppnisaðili Boeing, 131 nýja flugvél sem er 10% aukning á milli ára.

Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2002 ár sem Boeing afhentir fleiri vélar en Airbus á einum ársfjórðungi eftir því sem fram kemur í frétt Reuters fréttastofunnar um málið. Bæði Boeing og Airbus hafa aukið framleiðslu á vinsælustu vélum sínum, Boeing 737 og Airbus A320.

Sem fyrr segir hefur Airbus haft vinninginn í afhendingu nýrra véla sl. 10 ár en nú virðist sem þrautagöngu Boeing sé að ljúka. Þrautagangan hefur falist miklum töfum á tveimur nýjum vélum, 787 Dreamliner og 747-8, sem báðar voru fyrst afhentar til notkunar undir lok síðasta árs rúmum þremur árum á eftir áætlun.

Boeing afhent sex 747-8 breiðþotur, sem er lengri útgáfa af 747-400 vélinni, á fyrsta ársfjórðungi og  fimm nýja 787 Dreamliners. Á sama tíma afhenti Airbus fjórar A380 breiðþotur.

Þá bárust mikilvægar fréttir frá Airbus fyrr í vikunni en á skírdag hófst samsetning á nýjust vél Airbus, A350XWB, en henni er ætlað að keppa við 787 Dreamlinger vél Boeing. Fyrsta A350 vélin mun því taka á sig mynd á næstu vikum og stefnt er að fyrsta reynsluflugi vélarinnar í sumar. Hún verður þó ekki afhent til notkunar fyrr en á miðju árinu 2014. Það verður því spennandi að sjá hvernig tölur um pantanir og afhendingar munu þróast næstu árin.