Atvinnuleysi á evrusvæðinu í desember mældist það sama og í mánuðinum áður, eða 10%. Atvinnuleysi innan Evrópusambandsins var einnig óbreytt og mældist 9,6%.

Samkvæmt mælingum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, eru um 15,7 milljónir manna atvinnulausir í 16 ríkjum evrusvæðisins og alls um 23 milljónir atvinnulausra innan ESB.

Atvinnulausum fækkaði um 19 þúsund innan ESB og um 73 þúsund á evrusvæðinu. Atvinnleysi hefur nú mælst 10% eða hærra samfleytt í sjö mánuði, að því er kemur fram í frétt BBC.