Traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er í sögulegu lágmarki og mælist aðeins 10,1%. Á sama tíma ber 21,7% svarenda mikið traust til Bjarna Benediktssonar. Þetta er niðurstaða könnnar MMR sem mældi traust almennings til forystufólks í stjórnmálum dagana 4. til 5. apríl.

Flestir svarenda sögðust bera mikið traust til Katrínar Jakbobsdóttur, formanns Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, eða 59,2% og Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, 54,5%. Traust til þeirra beggja hefur aukist töluvert frá síðustu mælingu í apríl 2015.

81,0% svarenda sögðust bera lítið traust til Sigmundar Davíðs, sem er aukning um nær 18% síðan í apríl 2015. Þeim sem kváðust bera lítið traust til Dags B. Eggertssonar fjölgaði einnig töluvert frá síðustu mælingu, eða um rúmlega 10%.

Þegar traust til fyrrnefndra aðila er skoðað eftir stuðningi við stjórnmálaflokka kemur í ljós að Ólafur Ragnar Grímsson nýtur nær algers trausts meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins, en stuðningsmenn Samfylkingarinnar, Vinstri-grænna og Bjartrar framtíðar eru ólíklegastir til að bera mikið traust til Ólafs Ragnars. Sigmundur Davíð nýtur mikils trausts meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins, en mjög lítils trausts meðal stuðningsmanna annarra flokka.