Það getur verið ansi dýrt að mennta sig í Bandaríkjunum, en samkvæmt úttekt CNN Money nema skólagjöld, utan framfærslukostnaðar, í dýrasta háskóla Bandaríkjanna Landmark College rúmum 6,6 milljónum íslenskra króna. Skólinn sem er í Vermont og sérhæfir sig í nemendum með þroskahamlanir er einungis með 494 nemendur og eru sex nemendur á hvern kennara.

Í öðru sæti á listanum er Columbia háskólinn í New York borg sem er með 27 þúsund nemendur. Skólagjöld þar nema yfir 49 þúsund dollurum, eða rúmum 6,5 milljónum króna. Skólagjöld fyrir top 10 dýrustu skóla Bandaríkjanna nema milli 6,2 og 6,6 milljónum íslenskra króna.

Auk skólagjaldanna má reikna með að nemendur greiði að meðaltali 12 þúsund dollara, eða 1,6 milljón króna í lifnaðarkostnað. Vert er þó að taka fram að flestir nemendur í bandarískum háskólum hljóta einhvers konar styrk. Til dæmis greiða nemendur Columbia háskólans að meðaltali 20.800 dollara, eða 2,7 milljónir í skólagjöld á ári en ekki 6,5 milljónir sem er fullt verð.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir árleg skólagjöld í dýrustu háskólum Bandaríkjanna í dollurum samkvæmt nýjustu tölum fyrir skólaárið 2013/2014.

1. Landmark College $49,630
2. Columbia University $49,138
3. Sarah Lawrence College $48,696
4. Vassar College $47,890
5. Carnegie Mellon University $47,642
6. University of Chicago $47,514
7. Trinity College $47,510
8. George Washington University $47,343
9. Wesleyan University $47,244
10. Tulane University $46,930