Gistinætur í ágúst voru 1,73 milljónir og fjölgaði um 10% frá sama tímabili í fyrra samkvæmt frétt á vefsíðu Hagstofunnar .

41% gistinóttanna voru á hótelum og gistiheimilum og jókst um 7% milli ára, 40% á farfuglaheimilum, svefnpokaplássi, tjaldsvæðum og þess háttar og jókst um 16%, og 19% í gegnum vefsíður á borð við AirBnB og jókst um 6%.

Til viðbótar voru gistinætur erlendra ferðamanna 84.000 í bílum utan tjaldsvæða og 46.000 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Þá birti hagstofan fyrstu tölur fyrir gistinætur utan hefðbundinnar gistináttaskráningar í júlí, en áætlað er að fjöldi gistinátta í gegnum vefsíður á borð við Airbnb í júlí hafi verið 243.600.

Að auki hafi fjöldi erlendra gistinátta í bílum utan tjaldsvæða verið 51.400, og 28.300 erlendar gistinætur hafi í júlí verið á stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Verið er að yfirfara aðferðir við áætlun þeirra gistinátta sem metnar eru út frá Landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands og gæti sú yfirferð haft áhrif á tölur bæði fyrir 2017 og 2018.