Áætlað er að um 10% fullorðinna Íslendinga - eða um 25 þúsund manns - hafi ekki farið til tannlæknis á árinu 2015 vegna kostnaðar. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands .

Kostnaður er oftar tilgreindur sem ástæða þess að fólk sleppi tannlæknisheimsóknum hjá tekjulægri hópum en 17% fólks í tekjulægsta fimmtungnum fór ekki til tannlæknis vegna kostnaðar árið 2015, á móti 4% fólks í tekjuhæsta fimmtungnum.

„Á heildina litið er hlutfall þeirra hátt á Íslandi sem ekki fóru til tannlæknis þrátt fyrir að þurfa þess í evrópskum samanburði. Hlutfall kvenna sem ekki fór til tannlæknis vegna kostnaðar reyndist vera það fjórða hæsta í Evrópu og hlutfallið meðal karla það fimmta hæsta,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.